Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Þín miskunn, ó, Guð

1. Þín miskunn, ó, Guð, er sem himinninn há
og hjarta þíns trúfestin blíða.
Þinn heilagan vísdóm má hvarvetna sjá
um heims alla byggðina fríða.

2. Sem rammbyggðu fjöllin þín réttvísin er,
sem reginhaf dómur þinn hreini.
Vor Guð, allra þarfir þú glögglega sér
og gleymir ei aumingjans kveini.

3. Já, dásöm er náð þín og dag sérhvern ný,
ó, Drottinn, í skaut þitt vér flýjum.
Vér hræðast ei þurfum í hælinu því,
er hörmunga dimmir af skýjum.

4. Ef sálirnar þyrstir, þú svölun þeim lér,
þær saðning fá hungraðar frá þér.
Vor Guð, þínu' í ljósinu ljós sjáum vér,
og lífsins er uppspretta hjá þér.

B. S. Ingemann – Helgi Hálfdánarson

Hljóðdæmi