Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Saga Hörpustrengja

Norski trúboðinn Erik Aasbö starfaði í Reykjavík 1920 – 1921. Á þeim tíma safnaði hann saman söngvum og sálmum og gaf þá út í fyrstu söngbók Hvítasunnuhreyfingarinnar, sem hann nefndi „SÖNGVAR DROTTNI TIL DÝRÐAR.“ Hún var prentuð í Reykjavík árið 1921. Í henni eru 59 söngvar og eru flestir þeirra einnig í nýjustu söngbók hreyfingarinnar. Ekki er þess getið hverjir hafi ort eða þýtt söngvana, en ljóst er að suma þeirra þýddi Sigurbjörn Sveinsson kennari og rithöfundur.
Hjónin Eric og Signe Aasbö
Árið 1929 fór sænski trúboðinn Eric Ericson að safna fleiri söngvum, sem ortir höfðu verið og þýddir frá því starf byrjaði í Vestmannaeyjum 1921. Hann gaf út nýja söngbók, aukna og endurbætta með sama nafni og eldri bókin. Nokkrir gáfu fé fyrir prentunarkostnaðinum. Bókin innihélt 262 söngva og kom út árið 1929.
Hjónin Eric og Signe Ericsson
Til stóð að gefa út nýja endurbætta söngbók haustið 1939 og höfðu þeir Ericson og Ásmundur Eiríksson unnið að undirbúningi þess um tíma. Afturkippur kom í verkið þar sem mikil verðbólga varð um þetta leyti. Í stað stórrar söngbókar var ráðist í að gefa út viðbæti með heitinu Söngvar Drottni til dýrðar árið 1940, með 73 söngvum, útgefandi var Fíladelfíuforlagið, Reyjavík. Í þessu sönghefti eru söngvarnir nær eingöngu ortir eða þýddir af fólki sem kom með í Hreyfinguna eftir 1929. Það eru þau Ásmundur Eiríksson, Jónas S. Jakobsson, Konráð Þorsteinsson og Kristín Sæmunds. Auk þess eru nokkrir eftir Sigurbjörn Sveinsson.
Hjónin Ásmundur Eiríksson og Þórhildur Jóhannesdóttir
Enn var söngbókin aukin mjög og endurbætt árið 1948 og nafni hennar breytt í „HÖRPUSTRENGIR.“ Í henni voru 525 söngvar og sálmar. Þar voru sameinaðir í eina bók fjöldi þeirra söngva sem komið höfðu út í eldri heftum sem nefnd hafa verið hér að framan og nýjum söngvum bætt við. Hörpustrengir komu síðast út árið 1967 með 530 söngvum og sá Ásmundur Eiríksson um báðar útgáfurnar. Nokkrir sálmar er voru í eldri útgáfunni, voru felldir niður, en nýir settir í þeirra stað. Eftir einstaka höfunda eru, við lauslega talningu, langflestir söngvarnir í Hörpustrengjum eftir Ásmund, eða 194. Næstur kemur Sigurbjörn Sveinsson með 136, Jónas S. Jakobsson með 26, Kristín Sæmunds 19 og Sigríður Halldórsdóttir 17. Aðrir höfundar eiga þar einnig sálma.

Sálmarnir í þessum bókum endurspegla sígilda og vinsæla sálma sem sungnir hafa verið meðal vakningarhreyfinga um allan heim, ekki síst frá Norðulöndum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Nokkrir sálmanna eru sameiginlegur arfur kristinnar kirkju á Íslandi og finnast þeir einnig í sálmabók Þjóðkirkjunnar.

Daníel Jónasson 13. 01. 2021.