Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Ó, sjá hinn blíða brúðgumann

1. Ó, sjá hinn blíða brúðgumann,
í björtum skrúða kemur hann,
í sólarfagran sælugeim,
hann sína brúði flytur heim,
:,: úr skuggalegum dauðans dal,
í dýrðarbjartan himinsal. :,:

2. Þú kæra sál, er sefur rótt,
af svefni þínum vakna fljótt,
og glæð þinn litla lampa nú,
í ljóssins sal svo komist þú,
:,: því þangað kemur enginn inn,
sem ekki verður tilbúinn. :,:

3. Ó, seg mér eitt, er önd þín skírð
í andans guðdómlegri dýrð?
Þinn lampi´ að gagni engu er,
ef olíuna vantar hér.
:,: Ó, fylltu hann því fljótt, og sjá
hve fagurt ljósið brennur þá. :,:

4. Haf trúarlampann tilbúinn,
er til þín kemur brúðguminn.
Hvort mun hann koma´ um miðjan dag,
um morgun eða sólarlag?
:,: Vér vitum þetta ekki enn,
en eitt er víst, hann kemur senn. :,:

Elias  Hane - Sigurbjörn Sveinsson.

Hljóðdæmi