Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Nú árið er liðið

1. Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gervallt er runnið á eilífðarbraut,
en minning þess víst skal þó vaka.

2. En hvers er að minnast og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.

3. Hún birtist á vori sem vermandi sól,
sem vöxtur í sumarsins blíðum,
í næðingum haustsins sem skjöldur og skjól,
sem skínandi himinn og gleðirík jól
í vetrarins helkulda hríðum.

4. Hún birtist og reynist sem blessunarlind
á blíðunnar sólfagra degi,
hún birtist sem lækning við böli og synd,
hún birtist þó skærast sem frelsarans mynd,
er lýsir oss lífsins á vegi.

5. Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breytist í blessun um síðir.

6. Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir!

Valdimar  Briem.

Hljóðdæmi