Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Hver er sá, er getur hjálpað

1. Hver er sá, er getur hjálpað
og sem heyrir hjartans mál,
þegar hjörtun blæða´ af sorgarþyrna sting.
Sá, er kærleiksfulla hluttekningu sýnir vorri sál,
og hvers sæla návist ljómar oss í kring?

Kór: :,: Aðeins einn! :,:
Guðs almáttugi sonur, Jesús einn.
Brotni þínu brjósti á,
bylgja neyðarinnar há,
vinur, sem í raun þér reynist,
hann er einn!

2. Hver er sá, er getur hjálpað,
þegar byrðin erfið er,
þegar ei vér getum borið lífsins harm.
Er svo dásamlega styður oss í stríði lífsins hér,
og sem styrkir oss með guðdómlegum arm?

3. Hver er sá, er getur hjálpað,
þegar hrellir sorg og synd,
þegar sál vor þráir hvíld og frið og ró.
Sem oss fyrirgefning veitir,
og hvers blessuð benjalind
gjörir bljúgan anda hreinan eins og snjó?

4. Hver er sá, er getur hjálpað,
þegar fjörsins fölnar rós
og vér förum yfir dauðans kalda hyl.
Sem oss fylgir gegnum myrkrið,
inn í fullsælunnar ljós
hvar vér fagurt heyrum engilhörpu spil?

J. B. Mackey – Sigurbjörn  Sveinsson.

Hljóðdæmi